Dagur 8 af 365

Bara eitt hér : Feeling proud of myself :)


Dagur 7 af 365

Dagur 7 var ljómandi góður. Eftir góðann nætursvefn vaknaði ég full af orku, byrjaði að vinna smá hér heima og skellti mér svo í ræktina :) Í kvöld var ég svo með geðveikan kjúklingarétt sem Eva Laufey hin eina sanna var með í sjónvarpinu, hvet alla til að prófa hann https://evalaufeykjaran.is/islegar-kjuklinganulur/.  Hrós dagsins fær Ölgerðin fyrir nýja kristalinn með límónu og jarðaberjabragði. Það er ekki nóg með að liturinn á miðanum og tappanum öskri á mann að kaupa sig svo girnilega lítur hann út heldur er hann einnig sá besti af þeim öllum. Vel gert!!! Á morgun er ég að spá í að bregða mér í Kolaportið finnst alltaf ótrúlega gaman að koma þangað skoða, spá og spekulera í dótinu svo ég tali nú ekki um fólkinu :) En nú er ég farin í háttinn og býð góða nótt.


Dagur 6 af 365

Ósköp venjulegur dagur fyrir utan að mér tókst að sofa yfir mig í annað skiptið á nýju ári.  Ætli ég sé ekki bara komin með unglingaveikina eða það að verða 50tug á þessu ári er svona hrikalega erfitt.  Allavega mætti aðeins of seint í vinnu fór heim ræktin borðaði og svo bara latur zófus fram að háttatíma :)  Eitt sem truflaði mig aðeins í fréttum stöðvar 2 í kvöld þegar eldibrandur eða sá sem startaði flugeldasýningunni í vesturbænum sagði að í kvöld værum við að fagna því að jólin væru búin.  Eflaust fagna því einhverjir en ég stóð alltaf og stend í þeirri meiningu að við séum að kveðja jólin.  Líkt og maður fagnar sumrinu en ekki vetrinum nema kannski einhverjir.  Ég hef allavega aldrei fagnað því að sumarið er búið cool


Dagur 5 af 365

Dagur 5 gekk eins og í sögu andleg líðan öll á uppleið embarassed En þar sem ég þekki þetta það vel þá veit ég vel að þetta getur verið skammgóður vermir ekkert er öruggt.  Ég er þó allavega að gera eitthvað í því að líða betur og þrátt fyrir að hafa verið antisportisti hingað til þá verð ég að viðurkenna að hreyfingin er að spila stóra rútínu í minni líðan.  Eitt sem ég veit að er algjörlega útilokað enn sem komið er, er að tæma hugann og ná góðri slökun og á þetta sérstaklega við þegar ég á stefnumót við herra svefn.  Það er oft þannig að ég ligg andvaka og pirruð þrátt fyrir að vera dauðuppgefin og svefnlaus.  Eða það sem er öllu verra er að þetta finnst heilanum besti tíminn til að hugsa og það mikið.  Stórar framkvæmdir, framtíðarplön, vonbrygði, væntingar, mistök jafnvel innkaupalisti o.s.f.v.  Ég hef oft hugsað til hugleyðslutímanna sem ég fór í í gamla daga með vinkonunum og reynt þá tækni en ég er oftast nær rétt byrjuð að slaka á stóru tánni þegar hugurinn fer með mig eitthvað allt annað.  Ég vona að þetta komi líka en fyrst og fremst langar mig að ná tökum á kvíðanum.  Þessi ógeðslega tilfinning sem læsir sig í huga og líkama og maður fær ekkert við gert.  Timinn er eini vinur manns sem líður þó alltof hægt áður en eðlileg líðan nær yfirtökum aftur.  Einn dagur í einu, velja það besta fyrir mig án öfga og gera allt sem í mínu valdi stendur til að ná tökum á þessu.

Nú megið þið ekki halda að ég sé hundþung alla daga, ég er það alls ekki en meðan ég sprella og hlæ þá ber ég oft innri líðan í hljóði. Það er nefninlega þannig að það er haugur af fólki sem þekkir þetta ekki en er alltaf til í að segja manni að maður eigi bara að slaka á anda inn og út eða spyrja hvað gerðist núna, hvað gerðir þú????? meðan staðreyndin er sú að tilfinninginn er ósjálfráð og tengist ekki endilega neinu. ÞAÐ er eitthvað sem ég vil ekki heyra og hvet ég alla sem þekkja einhvern með kvíða eða annað að lesa sér til um það áður en farið er að hjálpa og ráðleggja.

Ást og friður kæru vinir  


Dagur 4 af 365

Góðann daginn !!! þessi dagur byrjaði heldur betur vel svaf yfir mig og var vakin með hringingu.  Ég dröslaðist á lappir og inn á bað, leit í spegilinn og sá líka þennan fallega bulldog í speglinum.  Ég er ekki að grínast andlitið hreinlega lafði niður á bringu.  Það var ekkert hægt að gera í þessu og mín von sú að þetta myndi nú allt lagast áður en langt liði á daginn, sem var svo raunin.  Ég fór úr vinnu um 11 leitið og gerði akkurat það sem ég hafði heitið að gera ekki frá og með áramótum.  Málið er það að ég las einhverja grein um einhverja konu sem ákvað að hætta að blóta öðrum bílstjórum í umferðinni og fyrir vikið losnað við haug af streitu og öðru slíku.  Þannig að ég ss. blótaði 2 bílstjórum upphátt eins og geðsjúklingur ein í bílnum.  En þetta var neyðartilfelli og eginlega bráðnauðsynlegt.  Fyrri bílstjórinn svínaði fyrir mig og sá síðari gat ekki ákveðið hvar hann ætlaði að vera á veginum sem gerði mig mjög óttaslegna og hélt ég mig í hæfilegri fjarlægð frá honum.  Þannig að það var algjörlega þörf á þessu mikil þörf.  Þegar heim var komið átti ég stund með ömmustelpunni minni meðan pabbi hennar spriklaði í ræktinni svo þegar hann kom heim fór ég og spriklaði.  Held í fyrsta sinn af mikilli ánægju á þessu ári.  Svo kraftmikil og hress eftir ræktina að ég gat unnið helling hér heima.  Hressandi !!!! Í kvöld fórum við svo fjölskyldan út að borða á Hard Rock í tilefni 23 ára afmælis yngsta sonar minn og þar varð kjella sko ekki fyrir vonbrigðumlaughing Aðeins seinni í bælið en til stóð uppgefin eftir viðburðaríkann dag.  Góða nótt kæru þið sem nennið að fylgjast með mér.


Dagur 3 af 365

Þjálfunarmarkmið mitt í morgun að vakna snemma tókst ekki svaf til 11 og satt best að segja hefði ég alveg getað sofið lengur, en það hefst á morgun þar sem ég hef ekkert val um það verð að vakna kl. 6.20 þannig að í rúmið fer ég klukkan tíu í kvöld.  Dagurinn var ágætur þrátt fyrir það pantaði gistingu erlendis fyrir næstu jól og áramót reyndi líka að bóka flugið en það er ekki komið inn hjá þeim svo það verður vonandi fljótlega.  Samt gerðist eitt merkilegt á meðan ég var að vesenast í þessu öllu, það hafði samband við mig kona sem á íbúð á Tenerife og vill endilega leigja mér hana í 2 ár.  Mig langaði mest af öllu að láta slag standa og taka því en skynsemisvitleysingurinn fór að þvælast fyrir mér og sagði mér að hugsa málið.  Í raun er ekki nein fyrirstaða vinnulega séð að ég grípi tækifærið en það er margt annað sem þarf að hugsa um.  Hef nú samt eginlega bara hugsað um þetta í allan dag enda þegar ég skaust í krónunu var ég heldur utan við mig og aulaleg leitandi að einhverju sem ég hafði ekki hugmynd um.  Kom þó heim með 3 fulla poka af einhverju ekkert skipulag í því.  Vildi að ég gæti bara sagt við mig hey þetta kom uppí hendurnar á þér af ástæðu og þú ættir að slá til.  Alltaf verið frekar ævintýragjörn svo aldrei að vita hver niðurstaðan verður.   Mér tókst að koma skipulagi á prjónakistuna mína en skápurinn bíður betri stundar hann verður bara að fá að líta út eins og unglingapartý í bili.  Mér tókst líka að vinna töluvert að hönnuninni minni sem var mjög gott en núna ætla ég að fleygja mér í sófann horfa á smá innihaldslaust sjónvarpsefni sem skilur ekkert eftir sig.  

Sjáumst á morgun embarassed


Dagur 2 af 365

Dagurinn í dag var svosem ekkert sérsakur langaði mest að breytast í skógarbjörn og leggjast í hýði þar sem vindurinn og regnið hömuðust á stofuglugganum í kapp við þá litlu dagsbirtu sem lét sjá sig í dag.  En þar sem ég kem ekki til með að breytast í skógarbjörn þá verð ég að koma lífinu í rútínu eftir allt fríið og ofátið.  Þannig í dag pantaði ég mér dagbók sem ég sneið að mínu höfði bara svona til að auðvelda mér markmiðin.  Hlakka mikið til að byrja að skrifa í hana bara fullt af allskonar.  Vonbrigði dagsins voru að missa af ræktartíma með þjálfaranum mínum sem mig hafði reyndar hlakkað til að fara í.  Manni líður svo flottur inní sér eftir tímann þó svo það sjáist nú ekki að utan.  Kannski er ég stórfurðuleg en ég er í alvöru ástfangin af rúminu mínu brakandi sænginni og fluffy koddanum.  Ég meira að segja kveð þessa hluti á morgnana með því að segja....hlakka til að sjá ykkur aftur í kvöld.  Og ég er svo sannarlega að meina það.  Það væri frábært ef maður væri jafn kátur að hitta spegilmynd sína á morgnana og segja...hæ þú hrikalega er gaman að sjá krumpaða koddafarsmarkað andlitið á þér sæta.  En nei í stað þess lemur maður sig fyrir að vakna ekki eins og fullkomnu stelpurnar í bíómyndunum allt á sínum stað varaliturinn, maskarinn, augnskugginn, og varla flóki í síðu hárinu.  Þetta er sennilega gerlegt með því að sofa sitjandi hversu þægilegt sem það nú er.  Hvað um þetta ég þarf ss. að taka í hnakkadrambið á sjálfri mér og koma mér í rútínu, fara fyrr að sofa og vakna fyrr á morgnana og ég hef nákvæmlega einn sólarhring rúmlega þar til ég mæti aftur í vinnu.  En þetta er svolítið ég bíða fram á síðustu stundu með að gera hlutina og reikna svo með kraftaverki.  Vinn betur undir pressu með því að keyra út síðustu hleðsluna á batteríinu.  Hey já og eitt annað ég verð bráðnauðsynlega að taka til í fataskápnum mínum og prjónakistunni á morgun.  Ég get þó allavega komið því í röð og reglu.  

Prik fyrir mér wink


Nýtt upphaf ný tækifæri

ársins 2017-01-01

  1. dagur ársins er runninn upp nú les maður á veraldarvefnum alls kynns fyrirheit og loforð til handa sjálfum sér og öðrum á komandi ári. Eðlilegt að öllu þar sem nýtt ár markar ný tækifæri og upphaf. Að sjálfsögðu eru þetta orð sem ætlað er að standa við en samt ekki alltaf þannig því hversu mikið sem okkur langar og hversu sterkur sem viljinn er gengur það ekki alltaf upp. Ég hef ákveðið að stefna að ríkari betra ári en áður hvort það tekst kemur í ljós í lok árs. En til þess að fylgjast með framgnagi fyrirheyta minna hef ég ákveðið að skrifa dagbók í 365 daga eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Ef það eitt tekst er það stór persónulegur sigur.

Andleg líðan þennan fyrsta dag er ekki sú besta þrátt fyrir áfengislaus rólgeg áramót verð að segja að það vakti ákveðin vonbrigði ..vonbrigði að hefja ekki árið líkt og mig langaði til vakna finna ekki kvíðann innra með mér er víst ekki ætlað mér enn sem komið er. En hey þetta er bara fyrsti dagur ársins svo enn er von.

Þessi jól voru um margt öðruvísi en undanfarin ár og hef ég tekið ákvörðun um að vera erlendis um þau næstu. Vonandi fylgja börnin okkar og barnabörn með og jafnvel aðrir fjölskyldumeðlimir eða vinir. Það er gott að vera staddur á öðrum stað laus við togstreitu, stress og mikla vinnu. Bara lifa og njóta hentar mér betur þar með má segja að væntingar mínar til þessara tímamóta voru of háar og stóðu ekki undir sér. Sagt er að þetta sé tími samveru en af hverju er gerð svo mikil krafa á þessum tíma árs þegar hægt er að stunda það á hvaða tíma árs sem er.

Ég er nú kannski ekki sú besta þegar kemur að því að heimsækja eða hringja í fólk þrátt fyrir endalausar aðgerðir að minni hálfu að ná fólki saman sem má segja að ég hafi gefist upp á og ekki hjálpar tilfinningaleg líðan mín þar. Það er ekki það að mig langi ekki það er meira ég get ekki og sama hversu togað er fast í hárið á mér þá gerist ekkert.

En nóg um það

Til hamingju með fyrsta dag ársins Hugrún Hrönn Þórisdóttir


Jólin koma

Já það er rétt jólin koma fyrir því.  Nú hef ég hringsólað um allt að leita að jólastemmaranum en einhverrja hluta vegna finn ég hann ekki.  Var viss um að það myndi gerast í gær þegar snjórinn lét sjá sig en nei það gekk ekki heldur.  Hef forðast verslanamiðstöðvar eins og heitann eldinn því í minni þrotlausu leit að jólastemmaranum skyldi ég ekki rænd orkunni í einhverri brjálæðislegri hringavitleysu kaupglaðra Íslendinga,enda svo með andlitið í súpudisknum gjörsamlega búin og peningalaus, búin að keyra öll kort í botn svo logaði í þeim. Það var þannig að ég var staðráðin í að njóta aðventunnar en gat það ekki heldur fann bara ekki þennan helvítis jólaanda sem allir virtust missa sig yfir í kringum mig.  Þá rann það upp fyrir mér ég saknaði æsku barna minna tilhlökkuninni spennunni sem fór yfir öll mörk eftir sem nær dró jólum.  Það voru þau sem voru stemmarinn og nú þyrfti ég bara að finna einhverja leið til þess að njóta upp á nýtt.  Börnin öll vaxin úr grasi og engar kröfur lengur til staðar um stemmara eða hefðir.  Hversu sorglegt... þegar ég flutti úr foreldrahúsum og hélt mín jól með mínum manni og börnum saknaði ég þess að vera ekki lengur barnið sem beið með eftirvæntingu. Svo áður en ég veit af eru börnin mín orðin fullorðin.  Tíminn líður hratt þannig ég ætla ekki að bíða lengur hvort sem stemmarinn ákveður að hitta mig eða ekki þá held ég jól og ætla að njóta.  


Hver er ég

Ég velti oft fyrir mér tilgangnum með þessu lífi .... er það einungis til þess að hafa áhrif á þróun mannsins var okkur gefið hlutverk.  Hvernig er hægt að réttlæta það þegar svo margir einstaklingar skila ekki neinu og enn fleiri hugsa bara um sjálfan sig. Hvort er betra eða verra má um deila. Fyrir nokkrum árum sagði einhver spekingur við mig ...þú ert heppin vegna þess að í næsta lífi færð þú að velja þú ert búin með þroskaskeiðin.   Ha hvað var maðurinn að hugsa að segja þetta við mig mér sem fannst ég í raun og veru búin að fokka öllu upp.  Vissi gæinn ekki að mig langaði að lifa endalaust. og hver er í raun tilgangurinn í því að endurfæðast þegar þú mannst hvort sem er ekki eftir neinu.  Sorry móðga eflaust marga en þegar ég er spurð þá sérstaklega af yndislegri móður minni .... Trúir þú ekki á Guð.... Nei ég trúi ekki!!!! en ég trúi á það góða í hverjum og einum.  Sama hversu vond við erum þá er alltaf eitthvað gott maður þarf bara að koma auga á það.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband